Hvatning um þáttöku í viðhorfskönnun um fiskeldi og samgöngumál

Vestfjarðastofa vill hvetja alla til að taka þátt í viðhorfskönnuninni sem send var í pósti á alla með lögheimili á Vestfjörðum um viðhorf þeirra til fiskeldis og samgöngumála en markmiðið er að fá fram væntingar og viðhorf Vestfirðinga.

Sama könnun var lögð fyrir Vestfirðinga árið 2020 og hafa niðurstöður þeirrar könnunar verið nýttar í hagsmunagæslu fjórðungsins. Til að ná til sem flestra hefur verið farin sú leið að senda bréf til allra og hægt er að fara tvær leiðir til þáttöku. Fara á netslóðina sem fram kemur í bréfinu ásamt lykilorði eða að nota QR kóðann ásamt lykilorði en með þessum hætti er auðvelt að taka þátt í könnuninni.

Til að tryggja jafnræði íbúanna er könnunin á þremur tungumálum; íslensku, ensku og pólsku. Það er rannsóknarmiðstöð Háskólans á Akureyri (RHA) sem sér um framkvæmd könnunarinnar fyrir hönd Vestfjarðastofu.

Með könnuninni gefst öllum íbúum Vestfjarða einstakt tækifæri til að láta skoðun sína í ljós á þessum tveimur málaflokkum sem hafa verið í brennidepli undanfarin ár. Niðurstöður verða meðal annars nýttar í stefnumótun sveitarfélaga og svæðisins alls til hagsbóta fyrir íbúana.

Guðrún Anna Finnbogadóttir
Verkefnastjóri Vestfjarðastofu

Tilkynning frá Sorpsamlagi Strandasýslu

Sorpsamlag Strandasýslu hefur glímt við rekstrarerfiðleika í nokkurn tíma. Ljóst er að ýmsar ástæðar liggja þar að baki. Ný stjórn hefur tekið við og hana skipa Þorgeir Pálsson, Sigríður Guðbjörg Jónsdóttir og Finnur Ólafsson. Stjórn Sorpsamlagsins mun leita allra leiða til að snúa rekstri Sorpsamlagsins við og um leið að aðlaga reksturinn að þeim kröfum og lagalegu forsendum sem að sorphirðu lýtur í dag. Í því felst að breytingar verða gerðar á gjaldskrá Sorpsamlagsins og öllu rekstrarformi. Framkvæmdarstjóri Sorpsamlagsins er Sigurður Marinó Þorvaldsson. 


Sorpsamlag Strandasýslu var viss brautryðjandi á Vestfjarðavísu hvað varðar aðgengi að flokkunarstöð og var og er þjónustustig hvað þetta varðar mjög hátt. Áfram verður reynt að halda háu þjónustustigi, en þó er ljóst að aðgengi og opnunartími Sorpsamlagsins eru til skoðunar. Það eru fáir söfnunarstaðir á landinu opnir allan sólarhringinn, allan ársins hring. Það má búast við breytingu á því fyrirkomulagi á næstunni.


Nánari upplýsingar um útfærslu og framkvæmd þessara breytinga verða gefnar á næstunni. Gert er ráð fyrir að ný gjaldskrá taki gildi frá og með 1. október n.k.  Nánari upplýsingar um starfsemi Sorpsamlags Strandasýslu má finna hér.

 

Gjaldskrá_Sorpsamlags_Strandasýslu_2022.pdf

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 19. september 2022

Mánudaginn 19. september 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 4. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Ísabella Benediktsdóttir, Hildur Aradóttir, Arnlín Óladóttir og Franklín B. Ævarsson.


Oddviti setti fund kl. 21:00.
Hildur Aradóttir ritar fundargerð á tölvu.

Dagskrá 4. fundar:

 1. Fundargerð 3. sveitarstjórnarfundar 15.08.2022.
 2. Fundargerðir nefnda
 3. Aðrir fundir
 4. Samvinna sveitarfélaga á Vestfjörðum um barnaverndarþjónustu
 5. Rekstur umdæmisráðs á landsvísu
 6. Reglur um fjárhagsaðstoð barnaverndarnefndar
 7. Deiliskipulag Ásmundarness
 8. Umsóknir um starf helgarstarfsmanns við Sundlaugina á Drangsnesi
 9. Úttekt á brunaviðvörunarkerfi Grunnskóla Drangsness
 10. Eftirlitsskýrsla frá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
 11. Beiðni Karl Björnssonar, framkvæmdarstjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga


Fundargerð:

 1. Fundargerð 3. sveitarstjórnarfundar 15.08.2022.
  Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
  Fundargerð lögð fram til kynningar.
 2. Fundargerðir nefnda
  1. Fundur Bygginga-, skipulags- og umhverfisnefndar 19.09.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir ákvörðun Byggingar,-skipulags- og umhverfisnefndar þann 19.09.2022 að aðalskipulagi Kaldrananeshrepps verði breytt í samræmi við tillögu að deiluskipulagi svæðisins í landi Ásmundarness.
   Náttúrulegar aðstæður gera það að verkum að ekki er unnt að uppfylla fjarlægðarkröfu skipulagsreglugerðar frá stofn- og tengivegum og í ljósi þess að Vegagerð gerir ekki athugasemd við deiliskipulag Ásmundarness. Fer sveitarstjórn því fram á undanþágu frá ákvæði reglugerðar nr. 5.3.2.5. um fjarlægð mannvirkja frá vegum.
   Sveitarstjórn staðfestir að sótt verði um undanþágu um fjarlægð frá stofn- og tengivegum á grundvelli undanþáguheimilda í reglugerð og felur þjónustufulltrúa að bregðast við.
   Borið upp og samþykkt samhljóða.
  2. Fundur Fjallskilanefndar 06.09.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
 3. Aðrir fundir
  1. Heilbrigðiseftirlit Vestfjarða, 139. fundur heilbrigðisnefndar, 01.09.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  2. Aðalfundur Sorpsamlags Strandasýslu, 29.08.2022
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  3. Fundargerð 19. Samráðsfundar Sambands íslenskra sveitarfélaga, 16.08.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  4. Fundargerð stjórnar Byggðasamlags Vestfjarða, 01.09.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  5. Fundargerð stjórnar Sorpsamlags Strandasýslu, 07.09.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  6. Samband íslenskra sveitarfélaga, 912. fundur stjórnar, 26.08.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

 4. Samvinna sveitarfélaga á Vestfjörðum um barnaverndarþjónustu
  Lög um breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002 tóku í gildi í lok maí þessa árs en helstu breytingar þess eru að umdæmi barnaverndarþjónustu skal vera í það minnst 6.000 íbúar og hafa yfir að skipa sérhæfðu starfsfólki í það minnsta tveim stöðugildum. Að auki þarf að hafa aðganga að félagsráðgjafa, sálfræðingi, lögfræðingi og einum starfsmanni með annars konar uppeldismenntun.

  Tillaga er um sameiginlegt teymi barnaverndarþjónustu á Vestfjörðum þar sem félagsmálastjórar félagsþjónustusvæðanna eiga sæti, sem og deildarstjórar eða starfsmenn barnaverndar eftir atvikum.

  Tillaga lögð fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að taka til frekari skoðunar barnaverndarþjónustu sveitarfélaga á Vestfjörðum.
  Borið upp og samþykkt.

 5. Rekstur umdæmisráðs barnaverndar á landsvísu
  Kaldrananeshreppi barst drög að samningi um umdæmisráð barnaverndar sem unnið hefur verið að í samvinnu við önnur sveitarfélög, ráðuneyti og Samband íslenskra sveitarfélaga. Að auki barst erindisbréf valnefndar og viðauki við samning vegna stofnunar og starfsemi umdæmisráðs barnaverndar.

  Drög, erindisbréf og viðauki lagt fram til kynningar.
  Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir drög að samningi um rekstur umdæmisráðs barnaverndar á landsvísu ásamt viðauka.
  Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps vill benda á launakjör ráðsmanna eru há miðað við laun sérfræðinga almennt, s.s. starfandi lögfræðinga hjá hinu opinbera.
  Sveitarstjóra falið að undirrita samning fyrir hönd hreppsins.

 6. Reglur um fjárhagsaðstoð barnaverndarnefndar
  Reglur um veitingu fjárstyrks til greiðslu lögmannsaðstoðar sbr. 47 gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 eru lagðar fram til kynningar.

  Sveitarstjórn samþykkir fyrirliggjandi reglur.
  Þjónustufulltrúa falið að upplýsa félagsmálastjóra.
  Borið upp og samþykkt.

 7. Deiliskipulag Ásmundarness
  Kaldrananeshreppi barst umsagnir vegna breytingu á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030 og nýtt deiliskipulag Ásmundarness.

  Sveitarstjórn vísar til liðar 2.a. í fundargerðinni.

  „ Sveitarstjórn staðfestir ákvörðun Byggingar,-skipulags- og umhverfisnefndar þann 19.09.2022 að aðalskipulagi Kaldrananeshrepps verði breytt í samræmi við tillögu að deiluskipulagi svæðisins í landi Ásmundarness.
  Náttúrulegar aðstæður gera það að verkum að ekki er unnt að uppfylla fjarlægðarkröfu skipulagsreglugerðar frá stofn- og tengivegum og í ljósi þess að Vegagerð gerir ekki athugasemd við deiliskipulag Ásmundarness. Fer sveitarstjórn því fram á undanþágu frá ákvæði reglugerðar nr. 5.3.2.5. um fjarlægð mannvirkja frá vegum.
  Sveitarstjórn staðfestir að sótt verði um undanþágu um fjarlægð frá stofn- og tengivegum á grundvelli undanþáguheimilda í reglugerð og felur þjónustufulltrúa að bregðast við.“

  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 8. Umsóknir um starf helgarstarfsmanns við Sundlaugina á Drangsnesi
  Kaldrananeshreppur auglýsti eftir starfi helgarstarfsmanns við Sundlaugina á Drangsnesi þann 24.08.2021 á vefsíðu hreppsins og samfélagsmiðlinum Facebook.

  Helstu verkefni eru skilgreind sem :
  - Öryggisgæsla við sundlaug
  - Afgreiðslustörf
  - Aðstoð við viðskiptavini
  - Þrif

  Hreppnum barst ein umsókn vegna umrædds starfs.
  Sveitarstjórn staðfestir ráðningu.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 9. Úttekt á brunaviðvörunarkerfi Grunnskóla Drangsness
  Þann 31. ágúst síðast liðinn var gerð úttekt vegna brunaviðvörunarkerfis Grunnskóla Drangsness. Stuðst var við leiðbeiningar nr. 6.038 um sjálfvirka brunaviðvörun frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun.

  Úttektin greinir frá því að kerfið var allt yfirfarið og boðsendingar til stjórnstöðvar prófaðar. Mörg slökkvitæki eru komin á aldur og ekki loga öll neyðarljós.

  Úttekt lögð fram til kynningar.
  Oddvita falið að bregðast við.
  Sveitarstjórn staðfestir.

 10. Eftirlitsskýrsla frá heilbrigðiseftirliti Vestfjarða
  Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða lögð fram til kynningar og umræðu þar sem við á.

  Eftirlitsskýrsla vatnsveitunnar á Drangsnesi greinir frá því að sýni úr eldhúsi veitingarstaðarins Malarhorns var tekið. Sýnið stenst kröfur neysluvatnsreglugerðar 536/2001.

  Skýrsla lögð fram til kynningar.

 11. Beiðni Karls Björnssonar, framkvæmdarstjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga
  Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 26. ágúst 2022 var lagt fram minnisblað lögfræði- og velferðarsviðs sambandsins um ramma að samkomulagi um samræmda móttöku flóttafólks.

  Stjórn sambandsins hvetur sveitarstjórnir til þess að kynna sér efni samkomulagsins og taka afstöðu til þess hvort sveitarfélögin geti tekið þátt í þessu mikilvæga samfélagslega verkefni.

  Beiðni lögð fram til kynningar.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 22:15.

Opinn fundur vegna vinnu við Menntastefnu Vestfjarða

Þriðjudaginn 4. október nk. verður haldinn opinn fundur vegna vinnu við Menntastefnu Vestfjarða.
Fundurinn er frá 14.00 til 17.00 og verður haldinn í Grunnskólanum á Hólmavík. 

Léttar veitingar & kaffi verða í boði. 


Fundurinn er opinn öllum og hvetjum við alla sem hafa áhuga á því að koma að vinnu við Menntastefnu Vestfjarða að mæta.