Starfsmaður óskast á skrifstofu Kaldrananeshrepps

Kaldrananeshreppur auglýsir eftir starfsmanni á skrifstofu í 50% starf.
Skrifstofa félagsins er staðsett á Drangsnesi. Starfið er nokkuð fjölbreytt og vinnutími samkomulagsatriði við oddvita. Mögulegt er að starfshlutfall aukist í framtíðinni. Viðkomandi þarf að geta hafið störf sem fyrst.

Hæfniskröfur:

 • Æskilegt er að viðkomandi sé með menntun eða reynslu sem nýtist starfi.
 • Góð tölvu- og bókhaldskunnátta er æskileg
 • Reynsla í DK bókhaldskerfi og færni í Excel er kostur
 • Rík þjónustulund, jákvæðni og skipulagshæfni
 • Lausnarmiðuð og góð samskiptafærni í rituðu og töluðu máli

Helstu verkefni:

 • Utanumhald um bókhald, reikningagerð og umsjón með tekjuöflun
 • Skjalavarsla, utanumhald um fundi og birtingar á vefsíðu
 • Afgreiðsla daglegra fyrirspurna, upplýsingagjöf til íbúa og móttaka á skrifstofu
 • Almenn skrifstofustörf og önnur tilfallandi verkefni sem oddviti felur starfsmanni


Umsóknum skal skilað til skrifstofu Kaldrananeshrepps, Aðalbraut 29, 520 Drangsnesi eða í tölvupósti á This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it. fyrir 10. febrúar 2021.

Umsóknir skulu innihalda starfsferilsskrá og kynningarbréf sem greinir frá reynslu, menntun og fyrri störfum ásamt rökstuðningi fyrir hæfni í starfið. 

Allar nánari upplýsingar veitir Finnur í síma 775-3377.

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 27. janúar 2021

Miðvikudaginn 27. janúar 2021 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 28. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.  Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Eva K. Reynisdóttir, Arnlín Óladóttir, Margrét Bjarnadóttir og Halldór Logi Friðgeirsson.

Oddviti setti fund kl. 20:00. Eva Katrín Reynisdóttir ritar fundargerð á tölvu.

Dagskrá 28. fundar:

 1. Fundargerð 27. sveitarstjórnarfundar 28.12.2020.
 2. Fundagerðir nefnda
 3. Aðrar fundagerðir
 4. Tilboð KPMG í bókunarþjónustu, tíma og verkáætlun 2021
 5. Starfsmannamál og auglýsing starfsmanns á skrifstofu.
 6. Umsögn vegna rekstrarleyfis Hótel Laugarhóls
 7. Erindi Björns Hróarssonar um skógrækt
 8. Erindi um Aðalbraut 10
 9. Stígamót framlagsbeiðni
 10. Uppkast að skólastefnu
 11. Vestfjarðarstofa – Samningar um Áfangastaðastofu
 12. Bréf HMS- HMS - heimildir fyrirtækja og ábyrgð á störfum byggingarstjóra
 13. Póst og fjarskiptastofnun – gagnabeiðni fjarskiptanets
 14. Covid reglugerðir og leiðbeiningar

Fundargerð:

 1. Fundargerð 27. sveitarstjórnarfundar 28.12.2020
  Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.

 2. Fundagerðir nefnda

 3. Aðrar fundagerðir

 4. Tilboð KPMG í bókunarþjónustu, tíma og verkáætlun 2021
  KPMG gerir tilboð skv. tímaáætlun vegna færslu bókhalds, gerðar ársreiknings og skattframtals, áætlunin gildir frá og með 1. janúar 2021 til og með 31. desember 2021.
  Lagt er til að bókhaldsþjónustan taki yfir hluta af verkefnum skrifstofustjóra.Eftir nána yfirferð og miklar umræður er ljóst að breytt fyrirkomulag auki ekki kostnað vegna bókunarþjónustu. Borið upp og samþykkt samhljóða.

 5. Starfsmannamál og auglýsing starfsmanns á skrifstofu.
  Skrifstofustjóri hefur beðist lausnar frá starfi, en er nú í hlutastarfi. KPMG er ætlað að taka yfir bókhaldstengd verkefni, en eftir stendur hlutastarf fulltrúa á skrifstofu. Lagt er til að 50% hlutastarf starfsmanns á skrifstofu sé auglýst. Gert er ráð fyrir að starfsmaður á skrifstofu sveitarfélagsins sjái um reikningagerð og tekjuöflun, utanumhald funda, bókhaldsgagna og launamála, sinni móttöku og svari daglegum fyrirspurnum. Borið upp og samþykkt samhljóða.

 6. Umsögn vegna rekstrarleyfis Hótel Laugarhóls
  Sýslumaðurinn á Vestfjörðum sendi umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfisumsóknar Viktoríu Ránar Ólafsdóttur f.h. Remote Iceland ehf til að reka gististað í flokki IV á Hótel Laugarhóli. Umsækjandi er með reynslu í fyritækjarekstri og MSc gráðu í Hótel- og þjónustustjórn. Oddvita er falið að svara umsagnarbeiðninni jákvætt. Borið upp og samþykkt samhljóða.

 7. Erindi Björns Hróarssonar um skógrækt
  Björn Hróarsson hefur óskað heimildar til að hefja framkvæmdir við skógrækt á Bassastöðum. Sveitastjórn veitir framkvæmdarleyfi til skógræktar á Bassastöðum en leggur áherslu á að ekki verði stuðlað að snjósöfnun á vegi. Borið upp og samþykkt.

 8. Erindi um Aðalbraut 10
  Marta Guðrún Jóhannesdóttir sendi erindi til að kanna möguleika þess að leigja kennarabústaðinn við Aðalbraut 10 fyrir tvo rithöfunda í sumar (a.m.k. út júní). Sveitastjórn heimilar það svo framarlega að ekki verði truflun á skólastarfi. Borið upp og samþykkt.

 9. Stígamót framlagsbeiðni
  Stígamót leitar til allra sveitarstjórna landsins til þess að óska eftir fjárstuðningi og samstarf um reksturinn. Framlagsbeiðni Stígamóta lögð fram til kynningar.

 10. Uppkast af skólastefnu
  Betrumbætt útgáfa af skólastefnu sveitarfélagsins er lögð fram til kynningar.

 11. Vestfjarðarstofa – Samningar um Áfangastaðastofu
  Sigríður Ó Kristjánsdóttir, framkvæmdarstjóri Vestfjarðarstofu, hefur óskað eftir því að fjallað verði um stofnun Áfangastaðastofu Vestfjarða. Um er að ræða þá breytingu að markaðsstofur landshlutanna verði að áfangastaðastofu með samningi við Atvinnuvega og nýsköpunarráðuneytið. Stefnt er að því að staðfesta samninginn við ANR fyrir 1. mars því liggur nokkuð á að fá staðfestingu. Borið upp og samþykkt samhljóða.

 12. Bréf HMS - heimildir fyrirtækja og ábyrgð á störfum byggingarstjóra
  Húsnæðis- og mannvirkjastofnun sendir nýjar leiðbeiningar varðandi heimildir fyrirtækja til að bera ábyrgð á störfum byggingarstjóra. Lagt fram til kynningar.

 13. Póst og fjarskiptastofnun – gagnabeiðni fjarskiptanets
  Póst og fjarskiptastofnun sendir upplýsingabeiðni um fjarskiptainnviði ásamt leiðbeinandi efni. Frestur til að afhenda Póst- og fjarskiptastofnun umbeðnar upplýsingar er veittur til 10. febrúar 2021. Oddvita falið að bregðast við erindinu. Borið upp og samþykkt.

 14. Covid reglugerðir og leiðbeiningar
  Sveitarstjórn fer yfir nýjustu sóttvararráðstafanir fyrir starfsemi sveitarfélaga og leggur nýjustu reglugerðir og leiðbeiningar fram til kynningar.

 Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.

Fundi slitið 21:00

Ocean EcoFarm íbúafundinum frestað

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps þakkar mikinn áhuga á fyrirhuguðum íbúafundi um Ocean EcoFarm. Vegna mikillar þátttöku hefur verið ákveðið að fresta fundi fram yfir birtingu nýrrar sóttvarnarreglu sem er væntanleg í næstu viku.

Nýr fundartími íbúafundar er miðvikudagurinn 20. janúar, kl  17:00.
Með fyrirvara um gildandi sóttvarnareglu, þá eru allir velkomnir en fundurinn verður einnig aðgengilegur á netinu í gegnum Zoom. Hlekkur á fundinn verður birtur síðar.

Bestu kveðjur,
Finnur Ólafsson, oddviti

Opinn íbúafundur

Kaldrananeshreppur boðar til opins íbúafundar ásamt Ocean EcoFarm ehf.

Fundurinn verður haldinn í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi, föstudaginn 8. janúar 2021 kl. 17.00 og eru allir velkomnir.


Dagskrá
:

 1. Kynning: Rannsókn á ljósátu og fiskirækt í Steingrímsfirði
     Jón Örn Pálsson verkefnastjóri annast kynninguna

          2. Umræður og fyrirspurnir.

 Fundarmenn eru beðnir um að boða komu sína til að auðvelda skipulag.

Bestu kveðjur,
Finnur Ólafsson
oddviti Kaldrananeshrepps
This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Sími / Phone: 775-3377

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 28. desember 2020

Mánudaginn 28. desember 2020 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 27. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi. Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Eva K. Reynisdóttir, Arnlín Óladóttir, Margrét Bjarnadóttir og Halldór Logi Friðgeirsson.

Oddviti setti fund kl. 20:00. Eva Katrín Reynisdóttir ritar fundargerð á tölvu.

Nánar: Sveitarstjórnarfundur var haldinn 28. desember 2020