Starfskraftur óskast við Sundlaugina á Drangsnesi sumarið 2022


Sundlaugin á Drangsnesi óskar eftir starfskrafti frá byrjun júní nk. til lok ágúst, yfir sumarið 2022. 
Um er að ræða vaktavinnu sem er unnið viku í senn og frí næstu viku eftir. 

Gerð er krafa á því að umsækjendur séu 18 ára eða eldri. 

Helstu verkefni og ábyrgð :
- Öryggisgæsla við sundlaug 
- Afgreiðslustörf 
- Aðstoð við viðskiptavini 
- Þrif 

Hæfniskröfur : 
- Rík þjónustulund og jákvæðni
- Sjálfstæð vinnubrögð
- Reynsla af sambærilegu starfi er kostur 

Umsóknum skal senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Allar nánari upplýsingar veitir Finnur í síma 775-3377.

 

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 12. apríl 2022

Sveitarstjórnarfundur 12. apríl 2022

Þriðjudaginn 12. apríl 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 39. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Arnlín Óladóttir, Margrét Ólöf Bjarnadóttir, Bjarni Þórisson og Kristín Einarsdóttir.

Oddviti leitar afbrigða, bætt verður við lið 24. Hvammur, lausn úr landbúnaðarnotkun.

Oddviti setti fund kl. 20:00. Bjarni Þórisson ritar fundargerð á tölvu.


Dagskrá 39. fundar:

 1. Fundargerð 38. sveitarstjórnarfundar 16.2.2022.
 2. Fundagerðir nefnda
 3. Aðrar fundagerðir
 4. Erindi skjólastjóra vegna viðhalds og fulltrúa hreppsins í áfallaráð
 5. Stefna Kaldrananeshrepps vegna móttöku flóttafólks
 6. Viðhald á sundskýlum Gvendarlaugar hins góða
 7. Beiðni Samkomuhússins Baldur
 8. Fundargerð verkfundar vegna grjótvarnar við höfnina
 9. Aðalfundur Veiðifélags Bjarnarfjarðarár 2022
 10. Afmælisfögnuður Grunnskólans á Drangsnesi
 11. Starfsmannamál Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps
 12. Beiðni Akademíu skynjunarinnar
 13. Samvinna sveitarfélaga á Vestfjörðum um barnaverndarþjónustu
 14. Beiðni Íslandsdeildar Transparency International
 15. Íbúaskrá Kaldrananeshrepps 1. desember 2021
 16. Áskorun frá sveitarfélaginu Vogar
 17. Umsagnarbeiðni Söngsteins í Hveravík
 18. Erindi Landssambands lögreglumanna
 19. Bréf frá Römpum upp Ísland
 20. Bréf frá Dómsmálaráðuneytinu vegna endurskipulagningu sýslumannsembætta
 21. Beiðni Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga
 22. Almannavarnir og Covid 19
 23. Skýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða
 24. Hvammur, lausn úr landbúnaðarnotkun

 

Fundargerð:

 1. Fundargerð 38. sveitarstjórnarfundar 16.2.2022
  Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
 2. Fundargerðir nefnda
  1. Fundur Héraðsnefndar Strandasýslu, 15.02.2022.
   Fundargerð lögð fram og staðfestir sveitarstjórn Kaldrananeshrepps að samþykkja fyrir sitt leiti að leggja niður Héraðsnefnd Strandasýslu. Borið upp og samþykkt.
  2. Fundur Umhverfis-, skipulags- og byggingarnefndar, 7.3.2022.
   Fundargerð lögð fram og samþykkt í heild sinni. Borið upp og samþykkt.
  3. Stjórnarfundur Sorpsamlags Strandasýslu, 3.3.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Lagt fram til kynningar.

 3. Aðrar fundargerðir
  1. Fundargerð 44. stjórnfundar Vestfjarðastofu og Fjórðungssambands Vestfirðinga, 23.2.2022
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Lagt fram til kynningar.
  2. Fundargerð 137. fundar Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða, 17.2.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Lagt fram til kynningar.
  3. Fundargerð stjórnar Byggðasamlags Vestfjarða, 30.3.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Lagt fram til kynningar.
  4. Samband íslenskra sveitarfélaga, 907. fundur stjórnar, 25.02.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir
  5. Samband íslenskra sveitarfélaga, 908. fundur stjórnar, 25.03.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir

 4. Erindi skólastjóra vegna viðhalds og fulltrúa hreppsins í áfallaráð
  Skólastjóri óskar eftir tímasettri áætlun vegna viðhalds við grunnskólann á Drangsnesi en það eru ýmis málefni sem þarf að ganga í. Verkefni sem um ræðir eru til dæmis að lagfæra ytra byrgði „nýja skóla“, koma í veg fyrir raka og myglu í glerskála, stólageymslu og smíðastofu.

  Í ályktun frá skólaráðsfundi sem var haldinn 30. nóvember síðast liðinn voru fundarmenn um að mikilvægt sé að klára að setja þéttilista í glugga í „nýja skóla“, drena fyrir ofan fótboltavöll, færa rólur sunnan við leikbát eða farga þeim og kaupa nýjar.

  Að auki óskar skólastjóri eftir því að sveitarstjórn skipar fulltrúa hreppsins í áfallaráð til fjögurra ára í senn.

  Erindi lagt fyrir.
  Sveitarstjórn skipar Kristínu Einarsdóttur fulltrúa hreppsins í áfallaráð og felur þjónustufulltrúa að upplýsa skólastjóra. Oddvita er falið að útbúa tímasetta áætlun í samræmi við vilja sveitarstjórnar.
  Borið upp og samþykkt.

 5. Stefna Kaldrananeshrepps vegna móttöku flóttafólks
  Málefni flóttafólks hafa verið áberandi í umræðunni síðustu daga og vikur og hafa sveitarfélög lýst yfir áhuga á að taka á móti flóttafólki. Gert er ráð fyrir að fjöldi einstaklinga mun koma hingað í leit að skjóli vegna stríðsátaka og óskar Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið eftir aðstoð sveitarfélaga til að taka á móti flóttafólki frá Úkraínu.

  Þátttakan getur verið sniðin að stærð og getu hvers sveitarfélags.

  Sveitarstjórn tekur vel í beiðni ráðuneytisins og felur oddvita að útbúa stefnu Kaldrananeshrepps vegna móttöku flóttafólks.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 6. Viðhald á sundskýlum Gvendarlaugar hins góða
  Mikil viðhaldsþörf er á sundskýlum Gvendarlaugar hins góða og er óskað eftir því að sveitarstjórn bregðist við ástandinu fyrir sumarið.

  Sveitarstjórn ákveður að fela oddvita að sjá til að ráðið verði í nauðsynlegar viðhaldsframkvæmdir fyrir sumarið.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 7. Beiðni Samkomuhússins Baldur
  Samkomuhúsið Baldur óskar eftir styrk sveitarfélagsins sem nemur fasteignagjöldum síðasta árs sem nemur 354.221 kr.

  Beiðni lögð fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að verða við þeirri beiðni. Borið upp og samþykkt.
  Þjónustufulltrúa falið að útbúa staðfestingarbréf.

 8. Fundargerð verkfundar vegna grjótvarnar við höfnina
  Verkfundur var haldinn miðvikudaginn 3. mars 2022 á skrifstofu Kaldrananeshrepps varðandi grjótvörn við höfnina á Drangsnesi. Greint er frá því að verkinu er lokið og að framundan sé að gera sjóvörn við Grundargötu.

  Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

 9. Aðalfundur Veiðifélags Bjarnarfjarðarár 2022
  Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps barst fundarboð vegna aðalfundar í Veiðifélagi Bjarnarfjarðarár 2022.

  Fundarboð lagt fram til kynningar og sveitarstjórn felur oddvita að mæta sem fulltrúi sveitarfélagsins í umboði sveitarstjórnar. Borið upp og samþykkt.

 10. Afmælisfögnuður Grunnskólans á Drangsnesi 3. september 2024
  Eftir tvö ár eða þann 3. september 2024 eru 80 ár liðin síðan skólinn á Drangsnesi var vígður. Af því tilefni hefur verið rætt um að skipa afmælisnefnd sem sjá mun um undirbúning afmælisfagnaðar.

  Kannar fræðslunefnd því áhuga sveitarstjórnar á að stofna slíkra nefnd og óskar eftir fund með sveitarstjórn áður en næstu skref verða tekin.

  Sveitarstjórn tekur vel í beiðni fræðslunefndar og er oddvita falið að koma á fundi. Borið upp og samþykkt samhljóða.

 11. Starfsmannamál Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps
  Beiðni frá Félagsþjónustu Stranda og Reykhóla:
  Nú stendur til að breyta málefnum barnaverndarinnar og hefur einnig verið rætt að Félagsþjónustan sé undirmönnuð en það fer of mikill tími í skýrslur og skriffinnsku og faglega vinnan sitji á hakanum.

  Kannar því félagsmálastjóri Félagsþjónustu Stranda og Reykhólahrepps áhuga sveitarstjórnar að ráða starfsmann í 70% starf en hann mun sinna heimaþjónustu Strandabyggðar, verkefnastjóri þeirra verkefna sem koma til vegna flóttamanna frá Úkraínu o.s.frv.

  Ef nýr starfsmaður yrði ráðinn til starfa yrði þetta um 2,5 millj. á ársgrundvelli  en deilt verður niður eftir íbúafjölda á hvert sveitarfélag. Væri það því 340 þúsund á ári fyrir Kaldrananeshrepp.

  Beiðni félagsmálastjóra lögð fram og sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkir að ráðið verði í umrædda stöðu, ásamt að boða félagsmálafulltrúa á fundar með sveitarstjórninni.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.
 1. Beiðni Íslandsdeildar Transparency International
  Íslandsdeild Transparency International var stofnuð árið 2021 á grunni Gagnsæis – samtök gegn spillingu. Transparency eru stærstu alþjóðasamtök heims með það að markmiði að berjast gegn spillingu og fyrir heilindum í stjórnsýslu, stjórnmálum og viðskiptalífi.
  Kannaður er því áhugi sveitarfélagsins við að styðja við deildina með fjárlögum allt frá 000kr. til 250.000kr.

  Beiðni lögð fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að styrkja ekki málefnið að svo stöddu.
  Borið upp og samþykkt.

 2. Samvinna sveitarfélaga á Vestfjörðum um barnaverndarþjónustu
  Umfangsmiklar breytingar eru að eiga sér stað í þjónustu við börn. Þessar breytingar hafa átt sér langan aðdraganda en birtast nú með lögum sem tóku gildi þann 1. janúar 2022.
  Sveitarfélögin á Vestfjörðum hafa farið ólíkar leiðir í meðferð og vinnslu barnaverndarmála en fyrir liggur að sveitarfélögin á Vestfjörðum þurfa að taka afstöðu til fyrirkomulags í meðferð og vinnslu barnaverndarmála.

  Á fundi félagsmálastjóra á Vestfjörðum með framkvæmdastjóra Vestfjarðastofu þann 21. janúar síðast liðinn var möguleg samvinna rædd og ákveðið að vinna sameiginlegar tillögur varðandi útfærslu á sameiginlegri barnaverndarþjónustu á Vestfjörðum.

  Tillögur lagðar fram til kynningar.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 3. Beiðni Akademíu skynjunarinnar
  Hreppnum barst fyrirspurn frá Akademía skynjunarinnar en þau eru að kynna sýningu sem stendur til að vera haldin á Vestfjörðum víðsvegar, á Ströndum og í Dölum næsta sumar. Langar þeim sérstaklega að kynna sýninguna á Drangsnesi og óska eftir tillögum að sýningarplássi.

  Beiðni lögð fyrir.
  Hugmyndir að sýningarplássi lagðar fyrir og oddvita falið að bregðast við.

 4. Íbúaskrá Kaldrananeshrepps 1. desember 2021
  Íbúaskrá Kaldrananeshrepps lögð fram til kynningar.

 5. Áskorun frá sveitarfélaginu Vogar
  Bæjarráð Sveitarfélagsins Voga hvetur sveitarfélög landsins og Samband íslenskra sveitarfélaga til að veita umsögn og taka afstöðu til frumvarps til laga um að veita Landsneti framkvæmdaleyfi til lagningar Suðurnesjalínu 2 í lofti í sveitarfélaginu. Með frumvarpi þessu er gengið gegn grundvallaratriði stjórnskipunar um að skipulagsvaldið sé hjá sveitarfélögunum.

  Áskorun lögð fram til kynningar.

 6. Umsagnarbeiðni Söngsteins í Hveravík
  Söngsteinn í Hveravík óskar eftir umsögn sveitarstjórnar um leyfi til reksturs veitingarstaðar með vísan til 10. gr. laga nr. 85/2007 um veitingastaði, gististaði og skemmtanahald

  Kristín víkur af fundi vegna vanhæfis.
  Sveitarstjórn gerir ekki athugasemdir og veitir jákvæða umsögn.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.
  Kristín kemur aftur inn.

 7. Erindi Landssambands lögreglumanna
  Hreppnum barst fyrirspurn frá Landssambandi lögreglumanna en þau gefa út blaðið Lögreglumaðurinn þar sem fjallað er um málefni lögreglunnar, reynsluheim lögreglumanna, starfsumhverfi þeirra, kjarasamninga og ýmislegt fleira.
  Vonast er eftir því að hreppurinn taki þátttöku í Lögreglumanninum en hægt er að kaupa margskonar auglýsingar sem sýndar verða í blaðinu sem og kveðju til lögreglumanna.

  Erindi lagt fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að verða ekki við beiðninni. Borið upp og samþykkt.

 8. Bréf frá Römpum upp Ísland
  Hreppnum barst bréf frá Römpum upp Ísland en markmið þeirra er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun og veitingarhúsum á Íslandi. Kannaður er áhugi sveitarfélagsins á því að taka þátt í verkefni þeirra um þetta mikilvæga mannréttindaátak með fjármagni, vinnu eða aðra aðstoð án endurgjalds.

  Bréf lagt fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að skoða þörf á svæðinu og þá möguleika til að bregðast við því og styðja við það átak. Borið upp og samþykkt.

 9. Bréf frá Dómsmálaráðuneytinu vegna endurskipulagningu sýslumannsembætta
  Kaldrananeshreppi barst bréf frá Dómsmálaráðuneytinu en undanfarin ár hefur ríkið verið á fleygiferð í innleiðingu á starfrænni þjónustu. Vakin er því athygli á þessu mikilvæga verkefni þar sem markmiðið breytinganna er er að efla núverandi starfsemi þannig að úr verði öflugar og nútímalegar þjónustueiningar.

  Bréf lagt fram til kynningar. Sveitastjórn harmar samþjöppun opinberra starfa á höfuðborgarsvæðið og bendir á nýjar áherslur ríkisstjórnarinnar um störf án staðsetningar.

 10. Beiðni Karls Björnssonar, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga
  Beiðni Karls Björnssonar er þríþætt og hljóða svo:
  1. Átak um Hringrásarhagkerfið
   Á fundi stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga þann 25. mars 2022 var fjallað um hagsmunagæslu sambandsins í úrgangsmálum en stjórnin fagnar því að átak um Hringrásarhagkerfið sé farið af stað og hvetur sveitarfélög til að nýta sér þá aðstoð sem í því felst.

  2. Innleiðing barnaverndarlaga
   Þann 13. júní sl. samþykkti Alþingi breytingar á barnaverndarlögum sem fela í sér grundvallarbreytingar á uppbyggingu barnaverndar innan sveitarfélaga. Með breytingunni voru barnaverndarnefndir lagðar niður í núverandi mynd og meginábyrgð daglegrar þjónustu barnaverndar falin barnaverndarþjónustu.

  3. Viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka
   Samband íslenskra sveitarfélaga hefur sett viðmiðunarreglur um framlög til stjórnmálaflokka en sveitarfélag skal veita stjórnmálasamtökum, sem fengið hafa a.m.k. einn mann í kjörinn í sveitarstjórn eða hlotið hið minnsta 5% atkvæða í næstliðnum sveitarstjórnarkosningum, árleg framlög til starfsemi sinnar.

   Beiðnir lagðar fram til kynninga.  

 11. Almannavarnir og Covid 19
  Sveitarstjórn fer yfir nýjustu sóttvarnarráðstafanir fyrir starfsemi sveitarfélaga og leggur nýjustu reglugerðir, leiðbeiningar og takmarkanir fram til kynningar.

 12. Skýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða
  Eftirlitsskýrsla Heilbrigðiseftirlits Vestfjarða lögð fram til kynningar og umræðu þar sem við á.

  Vatnsveitan á Drangsnesi stenst kröfur neysluvatnsreglugerðar 536/2001. Sýnið var tekið 7. apríl síðast liðinn í Drangi, krana 3.

  Skýrsla lögð fram til kynningar.

 13. Hvammur, lausn úr landbúnaðarnotkun
  Oddviti gerði grein fyrir landbúnaðarnotum í landi Hvamms í Bjarnarfirði.

  Fyrir liggur erindi um lausn úr landbúnaðarnotum fyrir hluta jarðarinnar úr landbúnaðarnotum í tengslum við breytingar á aðalskipulagi vegna frístunda- og ferðþjónustusvæðis á landinu.

  Landbúnaðarnot lögð fram til kynningar.
  Sveitastjórn samþykkir að heimila lausn lands, úr hluta jarðarinnar Hvamms úr landbúnaðarnotum sbr. 5. gr. jarðalaga nr. 81/2001 með síðari breytingum.
  Borið upp og samþykkt.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 22:11

Kynningarfundur - Breyting á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030/nýtt deiliskipulag í landi Ásmundarness

Kynningarfundur – Breyting á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030/nýtt deiliskipulag í landi Ásmundarness

Kynningarfundur vegna breytinga á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010-2030 og nýs deiliskipulags í landi Ásmundarness verður haldinn á Hótel Laugarhóli í Bjarnarfirði miðvikudaginn 13. apríl nk. kl. 16:00.

Aðalskipulagsbreytingin varðar breytingu á landnotkun á hluta jarðarinnar Ásmundarness þar sem gert er ráð fyrir 3,8 ha frístundabyggð (FS11) og 5,3 ha iðnaðarsvæði (I11) fyrir landeldi á svæði sem er skilgreint landbúnaðarsvæði í gildandi aðalskipulagi.

Deiliskipulagið gerir ráð fyrir frístundabyggð fyrir sjö frístundahús til skammtíma útleigu og iðnaðarsvæði fyrir landeldi á Bleikju á hluta skipulagssvæðisins með nýrri vélaskemmu og klakhúsi. Auk þess er gert ráð fyrir nýbyggingu íbúðarhúss og nýjum byggingarreit á íbúðarsvæði.

Þórður Már Sigfússon, skipulagsfulltrúi.

Verkstjóri óskast í unglingavinnuna á Drangsnesi

Kaldrananeshreppur óskar eftir verkstjóra í unglingavinnuna á
Drangsnesi sumarið 2022.
Starfstími verður ákveðinn í samræmi við verkstjóra, miðað er við 6 vikur sem endar þegar Bryggjuhátíð hefst eða síðustu helgina í júlí. 

Helstu verkefni og ábyrgð :
- Ber daglega ábyrgð og hefur umsjón með starfsemi unglingavinnunar 
- Vinnur markvisst að því að efla liðsheild og góðan líðan starfsfólks 
- Skráir niður vinnutíma starfsfólks og skilar til launafulltrúa 


Hæniskröfur :
- Jákvæðni 
- Sjálfstæð vinnubrögð 
- Bílpróf er kostur 

Umsóknum skal senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it..
Allar nánari upplýsingar veitir oddviti, Finnur Ólafsson í síma 775-3377

Kjörskrá vegna sveitarstjórnarkosninga 14. maí 2022

Kjörskrá Kaldrananeshrepps fyrir sveitarstjórnarkosningar 14. maí 2022 mun liggja frammi í Búðinni á Drangsnesi frá 11. apríl til 13. maí næstkomandi. 

Athugasemdir vegna kjörskrár skulu berast sveitarstjórn fyrir 13. maí 2022.