Sveitarstjórnarfundur var haldinn 1. desember 2022

Fimmtudaginn 1. desember 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 7. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Halldór Logi Friðgeirsson, Ísabella Benediktsdóttir, Hildur Aradóttir og Arnlín Óladóttir.

Oddviti setti fund kl. 20:00.
Hildur Aradóttir ritar fundargerð á tölvu.

Dagskrá 7. fundar:

 1. Fundargerð 6. sveitarstjórnarfundar 13.11.2022
 2. Fundargerðir nefnda
 3. Aðrir fundir
 4. Fjárhagsáætlun 2023 – Fyrri umræða
 5. Fjárhagsáætlun 2023 og fjögra ára áætlun 2023-2026 – Fyrri umræða
 6. Ábyrgð vegna lántöku fyrir Sorpsamlagið
 7. Ábyrgð vegna lántöku fyrir Sorpsamlagið – Viðauki I
 8. Beiðni Fjórðungssambands Vestfirðinga
 9. Samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum í velferðarmálum
 10. Beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga
 11. Erindi Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna
 12. Vinnuskýrsla frá Köfunarþjónustunni ehf.
 13. Styrktarbeiðni Félags talmeinafræðinga á Íslandi
 14. Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
 15. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga


Fundargerð:

 1. Fundargerð 6. sveitarstjórnarfundar 13.11.2022.
  Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
  Fundargerð lögð fram til kynningar.

 2. Fundargerðir nefnda
  1. Fundur sveitarstjórnar og fræðslunefndar, 29.11.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

 3. Aðrir fundir
  1. Aðalfundur Laugarhóls ehf., 04.11.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  2. Samband íslenskra sveitarfélaga, 915. fundur stjórnar, 25.11.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

 4. Fjárhagsáætlun 2023 – Fyrri umræða
  Umræða tekin um tekjustofna 2023 ásamt gjaldskrám og frestað til næsta fundar.
  Borið upp og samþykkt.

 5. Fjárhagsáætlun 2023 og fjögurra ára áætlun 2023-2026 – Fyrri umræða
  Fjárhagsáætlun 2023 og fjögurra ára áætlun 2023-2026 rædd. Oddviti gerir grein fyrir rekstrarliðum sveitarfélagsins og fyrirhuguðum fjárfestingum ásamt fjármögnun.

  Kristján Jónsson endurskoðandi sveitarfélagsins gerir grein fyrir fjárhagsáætlun 2023 og fjögurra ára áætlun 2023-2026.
  Fjárhagsáætlun 2023 og fjögurra ára áætlun 2023-2026 afgreidd til síðari umræðu.
  Samþykkt samhljóða.

 6. Ábyrgð vegna lántöku fyrir Sorpsamlagið
  Sorpsamlag Strandasýslu fjárfestir í nýrri sorpbifreið auk tækja sem hafa efnahagslega þýðingu og tekur til þess lán hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Óskað er eftir því að Kaldrananeshreppur veitir láninu einfalda ábyrgð með veði í tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds.

  Lánssamningur lagður fram til kynningar.
  Lánsupphæð er 45.000.000kr.- og ber Kaldrananeshreppur hlutfallslega ábyrgð sem nemur eignarhlut sínum hjá Sorpsamlagi Strandasýslu.
  Sveitarstjórn samþykkir að veita láninu einfalda ábyrgð sem samræmt er við fjárhagsáætlunargerð á samningstíma.
  Borið upp og samþykkt.

 7. Ábyrgð vegna lántöku fyrir Sorpsamlagið – Viðauki I
  Sveitarstjórn gerði grein fyrir viðauka 1 við ábyrgð vegna lántöku fyrir Sorpsamlagið en þar er gert grein fyrir einfaldri ábyrgð og hverju sveitarfélaginu skal veðsetja í.

  Viðauki 1 lagður fram til staðfestingar.
  Oddvita veitt umboð fyrir hönd sveitarstjórnar.
  Borið upp og samþykkt.

 8. Beiðni Fjórðungssambands Vestfirðinga
  Fjórðungssamband Vestfirðinga sendi hreppnum minnisblað um mat á kostnaði við gerð svæðisskipulags vestfirskra sveitarfélaga og beiðni um fjárhagslegan stuðning. Heildarkostnaður við verkefnið er áætlaður að nema að hámarki 120 mkr, þar af er áætluð hlutdeild sveitarfélaganna 65 mkr.

  Svæðisskipulagið mun marka meginstefnu og langtíma framtíðarsýn í umhverfis- og byggðamálum Vestfjarða þar sem hagsmunir sveitarfélaganna fari saman til að stuðla að uppbyggingu Vestfjarða sem landfræðilegri, hagrænni og félagslegri heild sem styrkir byggðaþróun á Vestfjörðum til framtíðar.

  Beiðni lögð fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að taka þátt í verkefninu og felur þjónustufulltrúa að tilkynna þátttöku hreppsins.
  Borið upp og samþykkt.

 9. Samstarfsverkefni sveitarfélaga á Vestfjörðum í velferðarmálum
  Ný lög um samþætta þjónustu í þágu farsældar barna, veigamiklar breytingar á barnaverndarlögum og lögum um lágmarksíbúafjölda á þjónustusvæðum í málefnum fatlaðs fólks skapa nýjar áskoranir, tækifæri og forsendur. Fjórðungsþing Vestfirðinga fól því stjórn að skipa starfshóp um aukið samstarf í velferðarþjónustu á Vestfjörðum.

  Markmið verkefnisins er að kanna grundvöll fyrir og eftir atvikum, setja á fót Velferðarþjónustu Vestfirðinga sem sinnir þjónustu við fatlað fólk, barnaverndarþjónustu og móttöku fatlaðs fólks.

  Samstarfsverkefni lagt fram til kynningar.

 10. Beiðni Sambands íslenskra sveitarfélaga
  Samband íslenskra sveitarfélaga fer með fullnaðarumboð til kjarasamningsgerðar fyrir hönd þeirra sveitarfélaga sem til þess veita umboð sitt og rennur gildistími allra kjarasamninga út á næsta ári.

  Sambandið undirbýr nú kjaraviðræður við 62 stéttarfélög starfsmanna sveitarfélaga en hluti af þeim undirbúningi er að endurnýja fullnaðarumboð sambandsins ásamt því að safna upplýsingum um laun og önnur starfskjör starfsmanna hlutaðeigandi sveitarfélaga/stofnana.

  Samband íslenskra sveitarfélaga óskar því eftir endurnýjuðu fullnaðarumboði til kjarasamningsgerðar fyrir hönd Kaldrananeshrepps en unnið er að samkomulagi um kjarasamningsumboði.

  Beiðni lögð fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að taka málið til frekari skoðunar þegar endanlegt samkomulag um kjarasamningsumboð liggur fyrir.
  Borið upp og samþykkt.

 11. Erindi Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna
  Undanfarin ár hefur Húnaþing vestra séð um rekstur Byggðasafns Húnvetninga og Strandamanna en safnið er í eigu allra sveitarfélaga við Húnaflóa.

  Byggðasafn Húnvetninga og Strandamanna óskar eftir áliti sveitarfélagsins, hvort vilji sé fyrir því að halda þessu fyrirkomulagi áfram sem hefur gefið góðan árangur.

  Erindi lagt fyrir.
  Sveitarstjórn tekur vel í núverandi fyrirkomulag og vill halda því áfram.
  Þjónustufulltrúa falið að bregðast við.
  Borið upp og samþykkt.

 12. Vinnuskýrsla frá Köfunarþjónustunni ehf.
  Köfunarþjónustan ehf. sendi hreppnum vinnuskýrslu vegna vinnu við flotbryggju í Kokkálsvík þar sem gert var við keðjufestiaugu í landstólpa og hjól í landgangi.

  Vinnuskýrsla lögð fyrir.
  Hafnarstjóra falið að annast samskipti við Köfunarþjónustuna.
  Borið upp og samþykkt.

 13. Styrktarbeiðni Félags talmeinafræðinga á Íslandi
  Félag talmeinafræðinga á Íslandi sendir hreppnum styrktarbeiðni og vill kanna áhuga sveitarfélagsins hvort það sjái sér fært um að styðja við útgáfu Talfræðingsins.

  Talfræðingurinn er fagtímarit sem er gefið út af Félagi talmeinafræðinga á Íslandi og inniheldur fjölbreytt efni, allt frá málþroska barna til kyngingarvanda MND sjúkra.

  Styrktarbeiðni lögð fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að samþykkja ekki styrktarbeiðni Félags talmeinafræðinga.
  Borið upp og samþykkt.

 14. Minnisblað frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  Samband íslenskra sveitarfélaga sendi frá sér minnisblað um forsendur fjárhagsáætlana 2023-2026. Minnisblaðið byggir að verulegu leyti á spá Hagstofu Íslands um efnahagsþróun til næstu ára sem stofnunin birti í lok júní sl.

  Minnisblað lagt fram til kynningar.

 15. Bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga
  Óskað er eftir þátttöku og framlags sveitarfélagsins til að taka þátt í samstarfi sveitarfélaga um stafræna umbreytingu. Samstarfið verður fjármagnað annars vegar með skyldubundnu grunnframlagi sem rennur fyrst og fremst til þess að standa undir launakostnaði sérfræðinga í stafrænu umbreytingateymi sveitarfélaga, og hins vegar með framlögum til að standa straum af þróun og kaupum á lausnum.

  Bréf lagt fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að taka ekki þátt í verkefninu.


Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 22:30

Starfsmaður óskast í félagslega heimaþjónustu í Kaldrananeshreppi

Helstu verkefni eru aðstoð við heimilishald og félagslegum stuðningi.
Laun eru samkvæmt taxta Verkalýðsfélags Vestfirðinga (Verk-Vest). 

Umsóknum skal senda á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.
Allar nánari upplýsingar og svör við fyrirspurnum veitir Soffía Guðmundsdóttir, félagsmálastjóri, Hafnarbraut 25, 510 Hólmavík í síma 451-3510 

 

This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.

Auglýsing um niðurstöðu sveitarstjórnar skv. 2.mgr. 36.gr skipulagslaga nr. 123/2010

Sveitarstjórn Kaldrananeshrepps samþykkti á fundi sínum sem haldinn var þann 12. apríl 2022, óverulega breytingu á aðalskipulagi Kaldrananeshrepps 2010 - 2030.
Breytingin tekur til breyttrar landnotkunar í landi Ásmundarness, landnúmer 141738.

Ástæða breytingar á aðalskipulagi sveitarfélagsins kemur til útaf nýju deiliskipulagi á bújörð við fjarðarbotn í Bjarnarfirði, milli Hallardalsár og Deildarár þar sem gert er ráð fyrir frístundabyggð (FS11) og Iðnaðarsvæði (I11) á svæðinu.

Það er niðurstaða Sveitastjórnar Kaldrananeshrepps að um óverulega breytingu aðalskipulags sé að ræða og er breytingin auglýst í samræmi við 2. mgr. 36 gr. skipulagslaga nr.123/2010.

Hægt er að skoða ofangreinda aðalskipulagsbreytingu á vefsíðu Skipulagsstofnunnar (í þessum hlekk): www.tinyurl.com/asmundarnes

Sveitarstjórnarfundur var haldinn 13. nóvember 2022

Sunnudaginn 13. nóvember 2022 kom sveitarstjórn Kaldrananeshrepps saman til 6. fundar kjörtímabilsins á skrifstofu hreppsins í samkomuhúsinu Baldri á Drangsnesi.
Fundinn sátu þau Finnur Ólafsson, Ísabella Benediktsdóttir, Hildur Aradóttir, Franklín B. Ævarsson og Sunna Einarsdóttir.

Oddviti setti fund kl. 20:00.
Hildur Aradóttir ritar fundargerð á tölvu.
Oddviti leitar afbrigða og tekur fyrir kauptilboð í Aðalbraut 8.

Dagskrá 6. fundar:

 1. Fundargerð 5. sveitarstjórnarfundar 19.10.2022
 2. Fundargerðir nefnda
 3. Aðrir fundir
 4. Deiliskipulagsbreyting Ásmundarness
 5. Framkvæmdir 2023
 6. Hitaveita í Bjarnarfirði
 7. Tilboð Ásgarðs upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs
 8. Umsókn um byggingarleyfi
 9. Beiðni um þátttöku sveitarfélaga við þróun aðlögunaraðgerða vegna loftlagsbreytinga
 10. Beiðni Strandapóstsins
 11. Styrktarbeiðni Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð
 12. Kauptilboð í Aðalbraut 8

Fundargerð:

 1. Fundargerð 5. sveitarstjórnarfundar 19.10.2022.
  Oddviti gerði grein fyrir afgreiðslu mála frá síðasta fundi.
  Fundargerð lögð fram til kynningar.

 2. Fundargerðir nefnda
  Engar fundargerðir lágu fyrir.

 3. Aðrir fundir
  1. Samband íslenskra sveitarfélaga, 914. fundur stjórnar, 12.10.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.
  2. Stjórnarfundur Sorpsamlags Strandasýslu, 24.10.2022.
   Fundargerð lögð fram til kynningar. Sveitarstjórn staðfestir.

 4. Deiliskipulagsbreyting Ásmundarness
  Kaldrananeshreppi barst bréf frá Skipulagsstofnun varðandi deiliskipulagsbreytingu Ásmundarness í Bjarnarfirði. Skipulagsstofnun fer yfir nokkra punkta sem huga þarf að áður en sveitarstjórn getur birt auglýsingu um samþykkt deiliskipulagsins.

  Bréf frá Skipulagsstofnun lagt fram.
  Sveitarstjórn hefur borist lagfært deiliskipulag og sveitarstjórn staðfestir breytingar á deiliskipulagi og felur Skipulagsfulltrúa að senda samþykkt deiliskipulag til Skipulagsstofnunnar og birta auglýsingu um samþykkt hennar í B-deild Stjórnartíðinda.
  Borið upp og samþykkt.

 5. Framkvæmdir 2023
  Sveitarstjórn ræðir þær framkvæmdir sem huga þarf að á árinu 2023.

  Þær framkvæmdir sem ræddar voru:
  - Ný borhola Hitaveitu Drangsness
  - Viðhald Grunnskólans á Drangsnesi
  - Viðhald Gvendarlaugar hins góða
  - Viðhald Sundlaugarinnar á Drangsnesi
  - Viðhald við heitu pottana á Drangsnesi
  - Nýbyggingar fasteigna í hreppnum
  - Nýbygging Björgunarmiðstöðvar
  - Framkvæmdir vegna viðhalds á höfnum
  - Innviði sumarbústaðahverfis Klúku
  - Opnun leikskólans Krakkaborgar og rekstur

  Framkvæmdir ræddar og vísað til vinnu vegna fjárhagsáætlunar 2023.
  Borið upp og samþykkt.

 6. Hitaveita í Bjarnarfirði
  Á 5. fundi sveitarstjórnar sem haldinn var 19. október sl. var samþykkt að taka tilboðum frá Ísrör ehf. í kaldavatns- og heitavatnsrör sem part af veitukerfi Klúkulóða í Bjarnarfirði.

  Sveitarstjórn vill kanna áhuga fasteignareigenda í Bjarnarfirði hvort vilji sé að fá hitaveitu í fasteignir sínar frá borholu í Klúku.

  Hitaveita í Bjarnarfirði lögð fram til kynningar.
  Þjónustufulltrúa falið að senda umræddum fasteignareigendum í Bjarnarfirði bréf þess efnis.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 7. Tilboð Ásgarðs upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs
  Ásgarður býður upp á sérfræðiþjónustu við framkvæmd skólastarfs í grunnskólum þar sem meginviðfangsefnið og yfirskrift er gjarnan að framkvæma þá stefnu stjórnvalda sem birtist í aðalnámskrá grunnskóla.

  Í samkomulagi Ásgarð og Kaldrananeshrepps væri unnið eftir þeim áherslum að sýn og stefna sveitarfélagsins sé skýr, Fræðslunefnd fái stuðning við að styðja við skólamál, að fjármagns sé vel nýtt og að skólastarf uppfylli skilyrði skólastefnu sveitarfélagsins.

  Tilboð lagt fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að fá fund með skólastjóra Grunnskóla Drangsness til að ræða fræðslumál sveitarfélagsins.
  Þjónustufulltrúa falið að finna fundartíma sem hentar og boða til fundar ásamt fræðslunefnd.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 8. Umsókn um byggingarleyfi
  Óskað er eftir byggingarleyfi í landi Hellu fyrir íbúðar og geymsluhúsnæði.

  Sveitarstjórn tekur vel í beiðnina.
  Sveitarstjórn vísar beiðni til Byggingar-, skipulags- og umhverfisnefndar ásamt byggingarfulltrúa.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 9. Beiðni um þátttöku sveitarfélaga við þróun aðlögunaraðgerða vegna loftlagsbreytinga
  Sérstök aðgerð hefur verið skilgreind í núgildandi Byggðaáætlun 2022-2023 og snýr hún að því að móta heildstæða nálgun íslenskra sveitarfélaga að aðlögun að loftlagsbreytingum. Aðgerðin er á ábyrgð Umhverfis-, orku- og loftlagsráðuneytisins og er framkvæmd í samstarfi við Byggðastofnun, Skipulagsstofnun, Skrifstofu loftlagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofu Íslands.

  Á grundvelli aðgerðarinnar er óskað eftir þátttöku nokkurra sveitarfélaga við að móta aðferðarfræði fyrir sveitarfélög til þess að bregðast við afleiðingum loftlagsbreytinga.

  Beiðni lögð fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að taka ekki þátt í verkefninu að svo stöddu.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

 10. Beiðni Strandapóstsins
  Hreppnum barst fyrirspurn frá ritnefnd Strandapóstsins þar sem athugað er hvort áhugi værir fyrir því að kaupa heilsíðuauglýsingu í Strandapóstinum, sem kemur út í vor. Heilsíða kostar 26.000 kr.-

  Beiðni lögð fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að taka tilboðinu og felur Kristínu Einarsdóttur að sjá um auglýsinguna sem segir frá þjónustu í sveitarfélaginu.

 11. Styrktarbeiðni Ljóssins, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð
  Ljósið, endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð sendir hreppnum styrktarbeiðni og vill kanna áhuga sveitarfélagsins hvort það sjá sér fært um að styðja við útgáfu Ljósablaðsins 2022. 

  Ljósið er endurhæfingar- og stuðningsmiðstöð fyrir fólk sem hefur fengið krabbamein og aðstandendur þeirra. Hægt er að velja um þrjá styrki en þeir eru vefborði með hlekk að upphæð 50.000kr.-, merki fyrirtækisins að upphæð 25.000kr.- og kveðja með hlekk að upphæð 10.000kr.-

  Styrktarbeiðni lögð fyrir.
  Sveitarstjórn ákveður að samþykkja ekki styrktarbeiðni Ljóssins.
  Borið upp og samþykkt.

 12. Kauptilboð í Aðalbraut 8
  Kaldrananeshreppi barst kauptilboð í Aðalbraut 8 á Drangsnesi. Tilboðið hljóðar upp á 7.000.000kr.-

  Kauptilboð lagt fram til kynningar.
  Sveitarstjórn ákveður að taka tilboðinu ekki að svo stöddu og ætlar að skoða áhrif þess ef eignin yrði seld upp á áform um leikskólarekstur.
  Borið upp og samþykkt samhljóða.

Fleira ekki tekið fyrir. Fundargerð lesin upp og samþykkt.
Fundi slitið klukkan 21:30

Álagningarseðlar fasteignagjalda

Kaldrananeshreppur fékk fyrirspurn varðandi birtingar á Álagningarseðlum fasteignagjalda en seðlarnir eru ekki lengur sendir út með bréfi og birtast nú á vefsíðunni Island.is. Allt fyrir umhverfið! 

Hvernig nálgast ég Álagningarseðilinn minn? 

 1. Ferð inná www.island.is
 2. Skráir þig inn á "mínar síður"
 3. Smellir á "Pósthólf - er bréf til þín?"
 4. Þar er smellt á "Álagningarseðill fasteignagjalda 2022" sem er að finna þar í listanum.
 5. Þar er hægt að hlaða álagningarseðli niður sem pdf eða prenta hann út.

 

Ef einhver vandamál koma upp er hægt að leita til skrifstofu Kaldrananeshrepps og senda tölvupóst á netfangið This email address is being protected from spambots. You need JavaScript enabled to view it.