Þrekvirki Umhverfishóps

Í maí 2020 fóru sjálfboðaliðar Umhverfishóps Kaldrananeshrepps af stað í hreinsunarátak. Að þessu sinni var Nesströndin hreinsuð, sem er afar falleg strandlengja sem liggur norðan við Drangsnes á leið til Bjarnafjarðar.

Kaldrananeshreppur er lítið sveitarfélag með rétt rúmlega 100 íbúa. Því er það til fyrirmyndar þegar að hópur velviljaðra íbúa komu saman í þeim tilgangi að hreinsa upp allt rusl. Undir forystu Kristínar Einarsdóttur var ákveðið að fara af stað til að hreinsa 4-5 km svæði og að sveitarfélagið myndi kosta leigu á 1 ruslagám frá Sorpsamlagi Strandasýslu.

Fljótlega kom í ljós að ströndin yrði ekki hreinsuð á einum degi. Gámurinn var fylltur á augabragði og ljóst var að 1 gámur myndi ekki duga.Handafl fólksins dugði heldur ekki til og því lögðu sjálfboðaliðar til vinnuvélar, tæki og tól til að reyna að ná vel skorðuðu rusli upp úr fjörunni.

Í lok mánaðar voru sjálfboðaliðarnir búnir að vinna hörðum höndum í tæpa viku og búnir að stappfylla og flytja í burt 5 stóra ruslagáma. Ruslið samanstóð mestmegnis af gömlum sjóreknum togaratrollum, en engir togarar eru í Strandasýslu. Heilmikil vinna og kostnaður fylgir því að koma þessum úrgangi í rétta meðhöndlun.

Greinilegt er að hér hefur verið unnið mikið þrekvirki og rétt er að þakka sjálfboðaliðum Umhverfishópsins sérstaklega fyrir þetta frábæra frumkvæði og mikla vinnu.